Emma Jónsdóttir ráðin teymisstjóri drengja
Fimleikadeild Keflavíkur hefur ráðið Emmu Jónsdóttur sem nýjan teymisstjóra drengja. Markmið ráðningarinnar er að efla karlafimleika á Suðurnesjum og fjölga drengjum í fimleikum.
Emma hefur mikla reynslu af þjálfun drengja og hefur síðastliðið ár verið aðalþjálfari drengja í hópfimleikum. Á liðnu keppnistímabili stóð hópur hennar sig með mikilli prýði og hlaut öll þau gullverðlaun sem í boði voru.
Viðurkenningar og ferill
Í lok síðasta keppnistímabils var Emma valin Þjálfari ársins 2025. Hún hefur lengi verið tengd deildinni – hóf fimleikaæfingar aðeins sex ára gömul og hefur starfað sem þjálfari í fimm ár. Emma var einnig útnefnd fimleikakona ársins árið 2019.
Á vetrinum 2024–2025 þjálfaði hún bæði 4. flokk og KKY (hópfimleika drengja) ásamt því að stunda háskólanám og starfa í Holtaskóla. Hún tók við drengjum í hópfimleikum, sem saman stóð af bæði nýliðum og reynslumeiri iðkendum. Með þrautseigju, metnaði og aðstoð Helenar Maríu á seinni hluta annarinnar, tókst henni að móta frábæra fimleikamenn sem sigruðu öll mót tímabilsins og sýndu að fimleikar eru líka fyrir stráka.
Emma er langt komin með þjálfaramenntun sína hjá FSÍ og á einungis eitt námskeið eftir af 3. stigi þjálfaramenntunar, hún fær því silfurleyfi eftir að því námskeiði er lokið.
Metnaður í fyrirrúmi
Emma er þekkt fyrir að vera ávallt boðin og búin að stíga inn í forföll þegar þess hefur þurft og hefur einnig mikinn áhuga á þjálfun iðkenda með sérþarfir, en hún þjálfaði einmitt þann hóp á síðasta tímabili.
Framtíðarsýn
Í vetur mun Emma þjálfa KKY (hópfimleika fyrir drengi) framhaldshóp drengja, krakkfimleika drengja, 4. flokk stúlkna í hópfimleikum og krakkafimleika fyrir börn með sérþarfir.
Við í Fimleikadeild Keflavíkur erum ótrúlega þakklát fyrir óeigingjarnt starf Emmu í þágu deildarinnar og hlökkum til að sjá áframhaldandi vöxt og aukna þátttöku drengja í fimleikum á komandi árum.