Nýr þjálfari gengur til liðs við Fimleikadeild Keflavíkur – Vitor Ferreira
Fimleikadeild Keflavíkur er afar ánægð að kynna nýjan þjálfara til starfa, brasilíska íþróttafræðinginn Vitor Ferreira, sem hefur víðtæka reynslu í parkour, ninja- og fimleikaþjálfun. Hann hóf störf með okkur í lok sumars og mun sinna fjölbreyttum verkefnum innan allra deilda okkar.
Mikil reynsla og fagleg menntun
Vitor er menntaður íþróttafræðingur frá Federal University of Espírito Santo í Brasilíu (2021) og hefur lokið ýmsum sérnámskeiðum, þar á meðal í styrktarþjálfun, hreyfigreiningu og áhaldafimleikum kvenna. Hann lauk einnig diplómanámi við Gymnastikhøjskolen í Ollerup í Danmörku (2018) þar sem hann sérhæfði sig í parkour og fimleikaþjálfun, ásamt stjórnendanámi í verkefnastjórnun.
Hann hefur starfað sem parkour og ninja þjálfari í Kanada, þar sem hann þjálfaði bæði börn, unglinga og fullorðna, auk þess tók hann þátt í þróa áfram námskeið og æfingaaðstæður. Þá hefur hann einnig þjálfað áhaldafimleika kvenna í Ollerup, sem og þjálfað grunn- og framhaldshópa. Áður en hann kom til Íslands starfaði hann sem einkaþjálfari í Brasilíu
Í dag er hann að mennta sig enn frekar sem Youth Fitness Specialist, með áherslu á styrktarþjálfun og hreyfiþróun ungmenna.
Nýir möguleikar fyrir iðkendur
Vitor hefur nú þegar hafið þjálfun hjá okkur og mun vinna þvert yfir allar deildir hjá okkur, hann mun einnig sinna styrktarþjálfun fyrir elstu iðkendur. Jafnframt mun hann byrja með Parkour hjá deildinni, grein sem hefur lengi verið eftirspurn eftir, og vonir standa til að bjóða upp á námskeið fyrir alla aldurshópa þegar nýtt húsnæði í Keili á Ásbrú verður tilbúið.
Vitor mun einnig þjálfa fullorðinsfimleika í hádeginu þrisvar í viku og tvisvar á kvöldin, ásamt því að sjá um afreksþjálfun FS fyrir fimleikaiðkendur í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þannig geta nemendur FS nýtt fimleika sem valgrein og mætt á æfingar á skólatíma.
Frábær meðmæli
Vitor kemur með sterk meðmæli frá fyrri samstarfsmönnum og kennurum. Einn þeirra segir:
„Vitor hefur alltaf öryggi og lærdóm nemenda í huga. Hann nýtir nýjustu rannsóknir og gögn til að þróa æfingaáætlanir og tryggir að iðkendur fái það sem þeir þurfa. Hann er samviskusamur, skapandi og leggur sig fram við að bæta sig stöðugt. Ég myndi ráða hann aftur í augnablikinu.“
Annar meðmælandi lýsir honum sem „góðum, hógværum og faglegum einstaklingi sem hefur einstaka hæfileika í kennslu og góða tengingu við börn og ungmenni“, á meðan þriðji segir hann vera „frábæran fagmann með mikla þolinmæði og áhuga á að kenna“.
Spennandi tímar framundan
Við erum gríðarlega spennt að fá Vitor í okkar teymi og erum sannfærð um að hans reynsla, þekking og metnaður muni efla starf okkar enn frekar. Með komu hans sjáum við fram á fjölbreyttara úrval greina innan fimleikadeildarinnar og fleiri tækifæri fyrir alla iðkendur, unga sem aldna.