Möggumót
Möggumót fimleikadeildar Keflavíkur fór fram laugardaginn 1. nóvember en mótið er nefnt eftir stofnanda deildarinnar Margréti Einarsdóttur. Þetta er í 6. skiptið sem mótið er haldið og hefur það vaxið ár frá ári. Mótið er boðsmót og voru um 120 keppendur frá Ármanni, Björk og Stjörnuni ásamt heimastúlkum úr Keflavík.
Mótinu var skipt í tvo hluta. Í þeim fyrri var keppt í 6. þrepi eldri og yngri. 6. þrepið er liðakeppni og fóru úrslit þannig að í 6. þrepi yngri var Ármann í fyrsta sæti, Björk í öðru sæti og Keflavík í því þriðja. Í 6. þrepi eldri var Ármann í fyrsta sæti, Björk í öðru sæti og Stjarnan í því þriðja.
Í seinni hluta mótsins var keppt í 5. þrepi eldri og yngri og er það í fyrsta skipti sem keppt er í því þrepi á Möggumóti. Þessi hluti mótsins er einstaklingskeppni og í fyrsta sæti samanlagt var María Árnadóttir Ármanni í 5. þrepi yngri. Í 5. þrepi eldri var Helga María Helgadóttir Ármanni í fyrsta sæti samanlagt.
Í lok mótsins var síðan pizzuveisla hjá keppendum í 5. þrepi og farið var í leiki og þrautir.
Samkaup hefur verið bakhjarl fimleikadeildar Keflavíkur í mörg ár og þetta árið gáfu þeir öllum keppendum þátttökupening. Kann deildin þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn.