Konukvöld Fimleikadeildarinnar
Iðkendur fimleikadeildarinnar, á aldrinum 14 – 20 ára, sem eru að fara á Eurogym fimleikahátíð í sumar héldu konukvöld fimmtudaginn 11. mars. Skemmtunin var fjáröflun fyrir ferðina og sáu foreldrar iðkendanna um alla skipulagningu kvöldsins. Konukvöldið var haldið á Nesvöllum og hófst kvöldið á kynningum frá ýmsum söluaðilum. Marta Eiríksdóttir var kynnir kvöldsins og þótti hún einstaklega hress og skemmtileg og leysti hlutverk sitt af staki prýði. Nokkur skemmtiatriði voru í boði krakkanna og má þar nefna dans, tónlistaratriði og tískusýningu frá Koda og Blend. Nokkrar mömmur skelltu sér með í að sýna föt og má segja að það hafi vakið mikla lukku. Fjölmörg fyrirtæki styrktu krakkana með því að gefa vinninga í happdrætti sem Marta stýrði af mikilli röggsemi. Kvöldið endaði á góðu gríni og tónlist frá Breiðbandinu sem fékk konurnar til að hlæja duglega. Góður styrktaraðili kvöldsins var ölgerð Egils Skallagrímssonar en hún styrkti iðkendur um veitingar og drykki á kvöldinu. Eurogym farar og foreldrar þeirra vilja þakka öllum sem komu að skemmtuninni kærlega fyrir.