Fréttir

Fyrstu heiðursfélagarnir heiðraðir
Fimleikar | 28. janúar 2025

Fyrstu heiðursfélagarnir heiðraðir

Anna Sigríður Jóhannesdóttir formaður deildarinnar bauð gesti velkomna og tilnefndi Björgu Hafsteinsdóttur, formann aðalstjórnar Keflavíkur, sem fundarstjóra og Sigríði Jóhannsdóttur sem ritara. 

Fundurinn hófst á því að Anna Sigríður fór yfir skýrslu stjórnar og því næst fór Eva Hrund, framkvæmdastjóri, yfir ársreikning 2024 og fjárhagsáætlun 2025.

Einar Haraldsson, fyrrum framkvæmdastjóri og formaður aðalstjórnar, tók til máls og fór aðeins yfir fjármálasögu Fimleikadeildarinnar, og minnti okkur á að gefast ekki upp í baráttunni um aukna þjálfarastyrki og að iðkendagjöldin eigi að duga fyrir launum þjálfara.

Sigurbjörg Fjölnisdóttir, formaður Fimleikasambandins, heiðraði okkur með komu sinni og gaf stjórn 40 ára afmælisbikar frá Fimleikasambandinu og þakkaði okkur fyrir að hafa starfað í hreyfingunni í þessi 40 ár.

Því næst tók Berglind Ragnarsdóttir, varaformaður deildarinnar, til  máls og heiðraði fyrstu 3 heiðursfélaga okkar.

Linda Hlín Heiðarsdóttir

Linda hefur unnið óeigingjarnt starf í þágu fimleikadeildar keflavíkur í árabil Linda var starfandi formaður í hátt í áratug meðal annars á erfiðum tímum í covid. Auk þess var Linda starfandi þjálfari hjá deildinni og kom meðal annars á laggirnar og þjálfaði fimleika fyrir börn með sérþarfir.

Heiðrún Rós Þórðardóttir

Heiðrún hefur verið viðloðandi starf deildarinnar óslitið frá barnsaldri. Hún hefur ómetanlegan metnað og ástríðu fyrir velgengi deildarinnar og hefur gengið í nær öll störf sem hægt er að ganga í innan deildarinnar. Í tilefni afmælisins hefur stjórn verið að fara í gegnum gamlar aðalfundargerðir og erfitt er að finna fundargerð þar sem nafn hennar kemur ekki fram, hvort það er sem iðkandi, fimleikakona ársins, þjálfari, rekstrarstjóri eða stjórnarmeðlimur.

Margrét Einarsdóttir

Magga er stofnandi fimleikadeildarinnar og var formaður fimleikadeildarinnar fyrstu árin ásamt því sem hún þjálfaði fyrir deildina. Magga var leiðandi í menntun þjálfara fyrir fimleikadeildina og sótti sér mikla menntun á erlendri grundu. Án Möggu væri fimleikadeildin ekki til. Við munum afhenda Möggu heiðursmerkið í afmælisveislu deildarinnar þann 12. September næstkomandi

"Þessar konur eru einungis brot af þeim aðilum sem hægt væri að heiðra af þessu tilefni og munum við á næstu árum halda áfram að veita þeim fjölmörgu aðilum viðurkenningu fyrir störf sín í þágu fimleikadeildarinnar."

"Ég vil nýta tækifærið og fyrir hönd stjórnar þakka þjálfurum, iðkendum, foreldrum og aðalstjórn Keflavíkur fyrir góða samvinnu á árinu og öllum þeim fyrirtækjum sem styrktu deildina fyrir að gefa okkur byr undir báða vængi", sagði Berglind að lokum.

Við þökkum öllum fyrir sem mættu á afmælisfundinn okkar og hlökkum til afmælisársins en stefnan er sett á 40 viðburði á árinu í tilefni 40 ára afmælis okkar. Einnig þökkum við Björgu fyrir góða fundarstjórn.

 

Myndasafn