Fréttir

Fyrsta FSÍ mótið í áhaldafimleikum haldið um helgina í Keflavík
Fimleikar | 17. febrúar 2025

Fyrsta FSÍ mótið í áhaldafimleikum haldið um helgina í Keflavík

Þrepamót í 1. - 3. þrepi fór fram í Keflavík þessa helgi en þetta er í fyrsta skipti sem Fimleikadeild Keflavíkur er boðið að halda Fimleikasambands mót í áhaldafimleikum. Mótið heppnaðist einstaklega vel og gekk allt upp. 105 stúlkur kepptu í Keflavík þessa helgina.

Fimleikadeild Keflavíkur átti 4 keppendur á mótinu og áttu þær allar mjög gott mót.

Guðlaug Emma Erlingsdóttir keppti í 1. þrepi, 14 ára og eldri og var hún í fyrsta sæti á slá og í öðru sæti á stökki.

Harpa Guðrún Birgisdóttir og Sara Benedikta E. Arnarsdótir kepptu í 3. þrepi, 13 ára og eldri. Harpa var í 4. sæti á slá og í 9. sæti af 29 keppendum í fjölþraut. Sara var í 2. sæti á gólfi og í 6. sæti í fjölþraut.

Snædís Líf Einarsdóttir keppti í 3. þrepi 11 ára og yngri og átti mjög gott mót þar sem hún framkvæmdi sumar æfingar í fyrsta skipti á móti. Besti árangur hennar var 6. sæti á tvíslá.

Jafnframt var gaman að sjá gengi fyrrum iðkenda deildarinnar og barna fyrrverandi iðkenda okkar en hann var eftirfarandi:

Dísella Maren Bjarnadóttir, Keflvíkingur og fyrrum iðkandi okkar í hópfimleikum, var í 1. sæti á tvíslá og i 5. sæti í fjölþraut en hún keppti í 3. þrepi 12 ára. Dísella æfir með Stjörnunni.

Matthildur Ísey Bendiktsdóttir, dóttir Halldóru Þorvaldsdóttur fyrrum iðkenda okkar og landsliðskonu, var í 1. sæti á slá, 4. sæti á tvíslá og í 4. sæti í fjölþraut í 2. þrepi, 11 ára og yngri. Matthildur æfir með Stjörnunni.

Ísabella Benonýsdóttir, dóttir Írisar Reynisdóttur fyrrum iðkenda okkar, var í 1. sæti á stökki, 2. sæti á slá, 1. sæti á gólfi og í 1. sæti í fjölþraut í 2. þrepi, 11 ára og yngri. Ísabella æfir með Gerplu.

Ingibjörg Lea Plédel Eymarsdóttir, dóttir Lilju Daníelsdóttur fyrrum iðkenda okkar, var í 1. sæti á stökki, slá og fjölþraut. Jafnframt var hún í 4. sæti á tvíslá og í 3. sæti á gólfi en hún keppti í 3. þrepi, 12 ára. Ingibjörg Lea æfir með Gerplu.

Við óskum öllum þessum "Keflavíkurstúlkum" hamingjuóskir með árangurinn sinn.

Í tilefni fyrsta mótsins og 40 ára afmælis fór fyrsta merki Fimleikafélags Keflavíkur upp í Akademíunni og kemur einstaklega vel út ská á móti Keflavíkurmerkinu.

Við erum einstaklega ánægð að hafa fengið að halda FSÍ mót og þökkum kærlega fyrir okkur og hlökkum til að halda fleiri mót í framtíðinni í áhaldafimleikum og hópfimleikum en um leið og við fáum nýtt fimleikahús þá getum við vonandi haldið loksins nokkur Fimleikasambandsmót á hverju ári.

Okkur langar að þakka öllum þeim sjálfboðaliðum, sem styrktu okkur með hjálp sinni, kærlega fyrir og þá sérstaklega Magnúsi Orra Arnarsyni fyrir að taka myndir fyrir okkur á sunnudeginum okkur að kostnaðarlausu.

Áhugasamir geta skoðað fleiri myndir hér á Myndasíðu FSÍ.

- Áfram Keflavík - 

 

Myndasafn