Fréttabréf fimleikadeildar
Fréttir af fimleikastarfinu
Fimleikadeild Keflvíkur lítur björtum augum á starf deildarinnar í vetur. Afar erfiðir tímar eru gengir í garð og viljum við leggja okkar að mörkum til að byggja upp öryggi og vellíðan barnanna okkar á næstu mánuðum.
Samningar okkar við erlenda þjálfara eru gerðir í íslenskum krónum og starfsemi deildarinnar og rekstur er ekki háð styrkjum fyrirtækja. Þó svo að mörg fyrirtæki séu okkur dyggir bakhjarlar í ýmsum verkefnum er deildin vegna aðhalds í rekstri á undanförnum árum ágætlega fær um að takast á við breytta tíma í rekstri verði þess þörf.
Það er stefna okkar að takmarka eins og mögulegt er kostnað iðkenda við þátttöku í mótum og viðburðum á vegum félagsins í vetur, hann verður einhver en vonandi sem minnstur. Þar skiptir vinnuframlag og stuðningur foreldra miklu.
Við óskum eftir aðstoð foreldra við að styðja við starfið og sérstaklega félagslíf barnanna í vetur. Endilega ef þið hafið lausa stund til að vinna með okkur að skemmtilegum hlutum hafið samband við þjálfara barnsins eða sendið okkur tölvupóst.
Það eru að bætast inn ný verkefni hjá okkur á næstu vikum og mánuðum og viljum við ítreka að ef einhverjir hafa skemmtilegar hugmyndir þá er faðmur fimleikanna stór og allir velkomnir.
Hjá okkur æfa sér til ánægju, auk fjölda stúlkna og drengja í hefðbundum fimleikum, um 30 konur á aldrinum 18 til 50 ára. Drengjum hefur fjölgað hjá okkur, í byrjendafimleikum, trompfimleikum og núna síðasta viðbótin er hópur stráka sem stunda svokallað götuhlaup og eru farnir að kíkja í salinn hjá okkur.
Nýr þjálfari kom til starfa hjá félaginu núna um mánaðarmótin, Ciprian Cretu frá Rúmaníu. Ciprian er afar vel menntaðar og reynslumikill þjálfari. Ciprian var sjálfur fimleikamaður í Rúmeníu í hátt í 20 ár og snéri sér síðan að þjálfun. Hann hefur meðal annars unnið að þjálfun rúmenskra ólympíufara. Ciprian tekur við þjálfun keppnishópa í áhaldafimleikum hjá okkur. Ciprian var m.a. einn af þjálfurum Sifjar Pálsdóttur og Hörpu Snædísar Hauksdóttur úr Gróttu, en hann þjálfaði hjá Gróttu 1999-2001 og talar þess vegna nokkra íslensku.
Perlan okkar hún Vivi er yfirþjálfari tromphópa og hafa trompkrakkarnir verið að gera frábærar æfingar undanfarið og við hlökkum til að fylgjast með þeim á mótunum sem eru framundan.
Með kveðju frá stjórn Fimleikadeildar Keflavíkur