Flottur árangur á Aðventumótinu
Í fyrri hluta Aðventumóts Ármans sem fram fór sl. laugardag var keppt í 5.þrepi íslenska fimleikastigans. Stúlkurnar 20 frá fimleikadeild Keflavíkur stóðu sig frábærlega, sýndu mikla breidd og frábæran liðsanda. Keppni var afar hörð en jafnframt frábært tækifæri til að stilla af nýjar skylduæfingar og æfa sig fyrir komandi tímabil. Aðalheiður Lind Björnsdóttir varð í 2. sæti á tvíslá með hreint stórglæsilega einkunn 16,2 og Katla Björk Ketilsdóttir í 2.sæti á slá með sömuleiðis glæsilega einkunn 16,05. Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir var einnig í 2.sæti á stökki með 11,6 stig og Alísa Rún Andrésdóttir sömuleiðis í 2.sæti á stökki í sínum aldursflokki með 11,2.
Seinni hluti Aðventumótsins fór fram á sunnudeginum en þá var keppt í 4.þrepi íslenska fimleikastigans. Þær Lilja Björk Ólafsdóttir og Ingunn Eva Júlíusdóttir voru tveir glæsilegir fulltrúar fimleikadeildar Keflavíkur og stóðu þær sig frábærlega vel. Lilja Björk varð í 5.sæti samanlagt með 52,60 stig og Ingunn Eva í 7 sæti með 52,15 stig. Þessar stúlkur eiga báðar mikið inni og hlakkar okkur til að sjá þær á mótum í vetur.
Þetta er glæsilegur hópur og óskum við þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn J