Afmælisár Fimleikadeildarinnar – frábært ár og algjör sprenging í lok árs!
Fimleikadeild Keflavíkur hefur um árabil gegnt lykilhlutverki í íþrótta- og æskulýðsstarfi í Reykjanesbæ og er starfsemin ein sú stærsta og fjölbreyttasta á Reykjanesi. Á nýliðnu starfsári var sérstök áhersla lögð á eflingu barna- og ungmennastarfs með aukinni fjölbreytni í æfingum, styrkingu þjálfarateymis, öflugu keppnisstarfi og virkri samfélagsþátttöku. Við héldum til dæmis áfram að bjóða upp á ungbarnatíma, sem er hugsað sem samverustund foreldra í fæðingarorlofi, ásamt því að bjóða upp á krílafimleika frá 0-5 ára aldurs og fimleikar fyrir börn með sérþarfir. Við byrjuðum aftur með fullorðinsfimleika og með ráðningu nýs þjálfara gátum við loksins boðið upp á Parkour aftur.
Við höldum ótrauð áfram á árinu 2026 og höfum sett á laggirnar hópinn “Fimleikafjör” og er aðallega ætlaður nemendum Háaleitisskóla en lágt hlutfall nemenda í Háaleitisskóla iðka íþróttir og því viljum við breyta.
Fjölgun þjálfara og hækkaður meðalaldur þjálfara
Þjálfarateymi deildarinnar var styrkt verulega á árinu með ráðningu nýrra þjálfara og yfirþjálfara. Sérhæfð þekking jókst meðal annars með ráðningu Parkour-þjálfara og komu erlends sérfræðings, Tony Retrosi, sem hélt æfingabúðir fyrir iðkendur og þjálfara. Þessar æfingabúðir lögðu mikilvægan grunn að áframhaldandi þróun faglegs starfs í áhaldafimleikum.
Meðalaldur þjálfaranna okkar hækkar ört með hverju ári þar sem að við leggjum mikið upp úr því að allir aðalþjálfarar hópa séu yfir 18 ára aldri.
40 ára afmæli fagnað með glæsibrag
Árið hefur verið eitt það eftirminnilegasta í sögu Fimleikadeildar Keflavíkur og einkenndist af sterkum árangri í keppni, mikilli uppbyggingu í starfi og hátíðlegu 40 ára afmæli deildarinnar. Sérstaklega hefur keppnisárangur í hópfimleikum vakið mikla athygli og staðfest stöðu Keflavíkur sem eitt af öflugri félögum landsins í hópfimleikum. Uppbyggingin í áhaldafimleikum, sem hófst aftur árið 2024, hefur skilað góðum árangri og hafa yngstu keppendurnir í áhaldafimleikum sýnt sig og sannað á árinu og hlökkum við til að sjá bjarta framtíð þar einnig.
Í hópfimleikum var árið einstaklega farsælt. 2. flokkur í hópfimleikum varð Íslandsmeistari í stökkfimi eftir frábært tímabil þar sem liðsheild, metnaður og stöðugleiki skiluðu sér.
Drengjahópurinn í hópfimleikum átti algjört draumaár og vann öll mót sem hópurinn tók þátt í á árinu. Þessi árangur undirstrikar sterka uppbyggingu drengjastarfs innan deildarinnar í forystu Emmu Jónssdóttur sem hefur verið þjálfari drengjahópsins og var ráðin sem teymisstjóra drengja á árinu.
Árangur 3. – 4. flokks í hópfimleikum var einnig afar eftirtektarverður á árinu og sýnir hversu stór, sterk og kraftmikil hópfimleikadeildin okkar er.
Árið var jafnframt 40 ára afmælisár deildarinnar sem var fagnað með fjölbreyttum viðburðum, sýningum og samfélagsstarfi. Við hófum árið á Aðalfundi deildarinnar þar sem tveir heiðursfélagar voru heiðraðir, en það voru þær Linda Hlín Hreiðarsdóttir og Heiðrún Rós Þórðardóttir sem voru heiðraðar að þessu sinni.
Fyrsta FSÍ mótið í áhaldafimleikum
Fimleikadeild Keflavíkur hélt sitt fyrsta mót á vegum Fimleikasambands Íslands í áhaldafimleikum þegar Þrepamót í 1.–3. þrepi fór fram í Keflavík. Um var að ræða tímamót í sögu deildarinnar, þar sem þetta er í fyrsta sinn sem Fimleikadeild Keflavíkur er falið að halda Fimleikasambandsmót í áhaldafimleikum. Mótið heppnaðist einstaklega vel og gekk framkvæmd þess upp í alla staði, en alls kepptu 105 stúlkur á mótinu. Ástæðan fyrir að við gátum haldið mótið er vegna þess að Þrepamótinu var skipt upp í karla- og kvennakeppni í fyrsta skipti í mörg ár, þar sem ekkert annað félag gat haldið mótið í fullri mynd - að öðru leiti er Íþróttaakademían ekki vænleg til mótahalds Fimleikasambandsins og því getum við ekki búist við að halda annað FSÍ mót fyrr en við fáum nýtt fimleikahús.
Í tilefni fyrsta FSÍ mótsins og 40 ára afmælis Fimleikadeildar Keflavíkur var fyrsta merki Fimleikadeildar Keflavíkur sett upp í Íþróttaakademíunni, þar sem það prýðir nú aðstöðuna á móti merki Keflavíkur.
BAUN
Í tilefni barna- og ungmennahátíðar bauð Fimleikadeildin upp á opið hús eina helgina á meðan hátíðin stóð yfir og munum við halda áfram að taka þátt í þessari flottu hátíð.
17. júní
Eftir margra ára fjarveru mætti fimleikadeildin loksins niður í skrúðgarð og voru iðkendur í 4. flokki í hópfimleikum og 4. þrepi í áhaldafimleikum með glæsilega sýningu á hátíðinni. Fyrr um daginn mætti Latibær í heimsókn í Akademíuna og skemmtu Íþróttaálfurinn og Solla Stirða gestum okkar við frábærar viðtökur.
Fimleikahringurinn í sinni fyrstu heimsókn
Fimleikahringurinn mætti í fyrsta skipti í heimsókn til okkar í Reykjanesbæ í sumar þegar þeir tóku hringinn í kringum landið og héldu glæsilega sýningu í Íþróttahúsinu á Sunnubraut og mættu margir gestir á sýninguna.
Fimleikahringurinn er verkefni sem Fimleikasambandið fer í annað hvert ár, markmið FSÍ og strákanna sem standa að honum (landsliðsstrákar í hópfimleikum og áhaldafimleikum), er að efla þátttöku drengja í fimleikum og hefur það heldur betur orðið raunin í gegnum tíðina. Í hvert skipti sem þeir klára hringinn gera þeir heimildarmynd um verkefnið en þessar myndir hafa verið sýndar á Rúv og finnast einmitt inni á Rúv sarpinum. Einnig er hægt að horfa á Fimleikahringinn í Icelandair flugvélunum.
Við þökkum þeim kærlega fyrir heimsóknina.
Afmælisdagurinn
Á afmælisdeginum okkar buðum við gestum og gangandi í köku og kaffi. Blaðrarinn mætti á staðinn og blés upp Blöðrudýr fyrir iðkendur okkar á meðan gestir og gangandi nutu þess að rifja upp gamlar minningar og flettu í gegnum gömul albúm á meðan þau gæddu sér á veitingunum. Myndatökubásinn var einnig vel sóttur af iðkendum okkar og gestum.
Jólasýningarsprengja í lok árs - Fimleikadeild Keflavíkur sprungin út úr Akademíunni
Fimleikadeild Keflavíkur þakkar frábæran stuðning á jólasýningunni um síðustu helgi. Allar fjórar sýningar seldiust upp, í fyrsta sinn í 40 ára sögu félagsins. Samtals sóttu vel á annað þúsund gestir sýningarnar fjórar og þessi mikli áhugi staðfestir sterka stöðu deildarinnar í samfélaginu okkar.
Á sama tíma sýndi metaðsóknin okkur skýrt að núverandi húsnæði er löngu sprungið bæði utan af starfseminni en einnig jólasýningunni sem viðburði. Þessi gríðarlega aðsókn kom aðeins í bakið á okkur og því miður lentu einhverjir í því að hafa ófullnægjandi útsýni en það er alveg ljóst að eftir því sem iðkendum fjölgar mun aðsóknin aukast enn frekar og því höfum við nú þegar hafist handa að leita leiða til að koma í veg fyrir að þetta komi fyrir aftur.
Til að mæta eftirspurn og bæta upplifun áhorfenda hefur verið ákveðið að á næsta ári munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að færa jólasýninguna í húsnæði með fullbúnum stúkum og betri aðstöðu til að tryggja öllum betra útsýni, örugga sætalausn og vandaða framsetningu.
Það er mikilvægt að hafa í huga að Jólasýningin er eini fjáröflunarviðburður fimleikadeildarinnar og lykiltekjulind fyrir barna- og unglingastarfið allt árið. En eins og við höfum ítrekað bent á þá takmarkar núverandi húsnæði tekjumöguleika okkar gríðarlega þar sem við höfum ekki færi á mótahaldi vegna slæmrar aðstöðu. Því erum við óendanlega þakklát fyrir hvern einasta miða sem selst því þessar tekjur gera okkur kleift að styrkja starfið.
Þrátt fyrir að einhverjir hafi upplifað takmarkað útsýni var jólasýningin sérstaklega metnaðarfull og glæsileg þetta árið. Í tilefni 40 ára afmælis deildarinnar var ákveðið að ráða sviðshöfundinn, Alonu, til að leiða jólasýninguna. Alona var ekki bara sýningarstjóri heldur höfundur sýningar og skapaði heildstætt verk þar sem fimleikar, dans og frásögn runnu saman.
Þetta var risastórt verkefni og hún má vera mjög stolt af útkomunni
Viðurkenningar veittar á jólasýningunni
Sjálfboðaliði ársins 2025 – Brimdís Björk Holm
„Við höfum aldrei áður veitt þessa viðurkenningu og hvað þá á jólasýningu, en við viljum hvetja okkar iðkendur og foreldra til að finna sjálfboðaliðahjartað sem byggði félagið okkar upp – því án sjálfboðaliða værum við ekki stödd hér í dag.
Fimleikadeild Keflavíkur er stolt af því að tilnefna Brimdísi Björk Holm sem sjálfboðaliða ársins 2025. Þrátt fyrir að vera aðeins 11 ára gömul hefur Brimdís sýnt einstakan dugnað, ábyrgð og frumkvæði.
Hún er ávallt boðin og búin að aðstoða, hefur ítrekað óskað eftir því að fá að hjálpa til á viðburðum og sinnt margvíslegum verkefnum af gleði – ekki af skyldu.
Einmitt þess vegna er framlag hennar svo ómetanlegt. Hún minnir okkur á kjarna sjálfboðaliðans: að gefa af sér til að byggja upp eitthvað stærra.
Brimdís Björk Holm er ekki bara sjálfboðaliði ársins 2025 – hún er tákn um framtíð íþróttastarfsins.“
Heiðursmerki Fimleikadeildar Keflavíkur – Margrét Einarsdóttir
Fyrr á árinu veittum við Lindu Hlín og Heiðrúnu Rós heiðursmerki deildarinnar. Ætlunin var að veita þrjú – og hér var hún loks mætt: stofnandi deildarinnar, Margrét Einarsdóttir.
Margrét var formaður deildarinnar fyrstu árin, starfaði sem þjálfari og lagði mikla áherslu á menntun þjálfara, meðal annars með námi erlendis.
Gaman er að segja frá því að Magga hringdi í okkur eftir jólasýningu og sagði okkur ýmsar sögur, þess á meðal að hún hafi farið til Austurríkis til þess að sækja Fimleikastigannn. Undirrituð hélt að hún væri að tala um búnað, líkt og við sjáum í ræktinni - svona stiga sem við hoppum í - nei hún sótti sjálfan Fimleikastigann - Þrepin sem við þekkjum í dag sem Íslenska fimleikastigann. Hann vissulega tók breytingum um leið og hún kom heim frá Austurríki, en hún var engu að síður frumkvöðull að því að sækja þekkinguna og taka hana með sér heim. Hún sagði okkur einnig frá öðrum sögum sem má líta á sem að hún hafi einnig verið frumkvöðull í þjálfun fyrir börn með sérþarfir, þar sem að hún áttaði sig á því einn dag á æfingu á einn iðkandi hennar var alltaf blá á vörunum ef á reyndi í upphitun. Það kom í ljós að iðkandinn var með hjartagalla sem henni var ekki sagt frá. Hún um leið hringdi í foreldrana og sagði að þetta voru ekki upplýsingar sem henni var ljóst um og vildi að sjálfsögðu ekki taka ábyrgð á því ef eitthvað kæmi fyrir. Foreldrarnir sögðust taka alla ábyrgð - þau vildu bara að barnið myndi upplifa það sama og tvíburasystir hennar - þannig að Maggga fór á fullt. Stúlkan æfði bara gólfæfingar, sem gerði það að verkum að hún endaði á því að fá verðlaun í gólfæfingum, sem Magga var svo stolt af.
Þetta dæmi segir samt svo mikið um það sem er enn í gangi hjá deildinni í dag - skólinn fær allar upplýsingar um allar greiningar á börnum - íþróttafélögin ekki. Hvernig getum við þjónustað alla þessa krakka án þess að fá einhverjar upplýsingar, og af hverju skilar stuðningurinn við þessi börn úr skólanum til íþróttafélaganna? Af hverju er ekki ákveðið fjármagn sem skilar sér frá bænum eða stuðningur frá bænum við þessi börn svo íþróttafélögin þurfi ekki að víkja barninu frá sökum fjármagns eða þjónustu við börnin sem eru í þessum tiltekna hóp sem barnið er í. Nú er bæði Akranes og Akureyri komin með þennan stuðning við þessi börn sem fylgir þeim inn í tómstundir - af hverju getur ekki Reykjanesbær gert hið sama?
Magga gaf okkur á fertugasta árinu okkar enn eina vitundarvakninguna - Án Möggu og þeirra sem með henni stóðu væri fimleikadeildin ekki til í dag. Takk fyrir allt sem þú gafst deildinni okkar.
Fimleikaiðkandi ársins – Andrea Ósk Arnarsdóttir
„Andrea Ósk hefur verið ein stærsta fyrirmynd í fimleikasalnum síðasta árið. Hún sýnir ótrúlegan metnað, áhuga og vinsemd á hverri einustu æfingu.
Hún keppti upp fyrir sig með 3. flokki allt tímabilið og átti stóran þátt í frábærum árangri liðsins, varð Íslandsmeistari, bikarmeistari og vormótsmeistari.
Andrea er ekki bara frábær keppandi – hún er fyrirmynd. Við erum ótrúlega þakklát fyrir að hafa hana í okkar hópi.“
Horft til framtíðar – vilji til umbóta
Reynslan af jólasýningunni í ár hefur staðfest það sem við höfum lengi vitað:
Fimleikadeild Keflavíkur er orðin of stór fyrir núverandi aðstöðu.
Við hlökkum til þess dags þegar deildin fær nýtt, rýmra og löglegt keppnishús sem rúmar bæði iðkendur og áhorfendur – þar sem hægt verður að halda jólasýningar og mót með fullnægjandi aðstöðu fyrir alla.
Við þökkum fyrir árið og óskum ykkur gleðilegs nýs árs
Á árinu upplifðum við mikinn vöxt í starfi deildarinnar, sem fylgja óhjákvæmilega ákveðnir vaxtaverkir. Í slíkum aðstæðum verður óneitanlega mikið álag á starfsfólki deildarinnar og þegar verkefni eru mörg og samtímis – getur komið upp sú staða að mistök verði eða upplýsingaflæði raskist. Það breytir ekki þeirri staðreynd að við viljum ávallt bæta okkur – við berum ábyrgð, lærum af reynslunni og setjum okkur það markmið að gera hlutina betur með hverju árinu.
Við erum afar stolt af fimleikadeildinni okkar og þeim öfluga hópi iðkenda, þjálfara og styrktaraðila sem mynda hjarta hennar. Með áframhaldandi þróun, fagmennsku og samstöðu hlökkum við til næstu ára og að styrkja starfið enn frekar.
Sérstök áhersla verður áfram lögð á að auka aðgengi barna að íþróttum með fjölbreyttum og hagkvæmum úrræðum, þar á meðal verkefnum á borð við Fimleikafjör á Ásbrú. Slík verkefni endurspegla skýrt samfélagslegt hlutverk deildarinnar og framtíðarsýn okkar.
Með lærdóm, stolti og bjartsýni að leiðarljósi horfum við til framtíðar og áframhaldandi uppbyggingar fimleikastarfs í Keflavík.
Að lokum viljum við þakka öllum iðkendum, fjölskyldum þeirra og styrktaraðilum fyrir síðastliðið ár, við vonum að þið hafið notið jólanna og átt frábært ár. Við óskum ykkur öllum gleðilegs nýs árs.
Við hvetjum ykkur einnig til þess að fara yfir árið með því að skoða Myndasíðuna okkar.
Við hlökkum til næsta starfsárs og erum spennt fyrir nýjum verkefnum og áskorunum.
